Verkfræði og náttúruvísindasvið

Laufey Lind Sigþórsdóttir McClure
1. sæti
Vélaverkfræði
Jón Gunnar Hannesson
2. sæti
Hugbúnaðarverkfræði
Þorgeir Markússon
3. sæti
Líffræði

Skammtímamarkmið  

Ósamræmi vinnuálags móti einingum

Vaka hyggst bæta úr ósamræmi hvað varðar einingafjölda gegnt vinnu- og verkefnaálagi í áföngum á sviðinu. Núverandi staða leiðir til þess að erfitt er fyrir nemendur að meta raunverulegt álag við val á áföngum.

Birting úrlausna

Vaka hyggst beita sér fyrir því að úrlausnir dæma, og þá sérstaklega heimadæma, séu birtar á heimasvæði námskeiða. Það er ekki bjóðandi að veita aðeins gagnrýni fyrir skil án þess að sýna rétt verklag að því loknu. Vaka mun því einnig berjast fyrir því að nemendur fái skýra sundurliðun á námsmati ásamt skýringu á einkunnagjöf við öll verkefna- og prófaskil.

Rafræn kennsla

Vaka mun berjast fyrir því að kennarar haldi áfram góðu starfi þeirra hvað varðar upptöku og aðgengi að fyrirlestrum. Fyrirlestrar og dæmatímar skuli enn vera teknir upp og gerðir aðgengilegir út önnina fyrir nemendur.

Tímanleg einkunnagjöf

Einkunnagjöf fyrir skilaverkefni og heimadæmi skuli vera komin til nemenda á skikkanlegum tíma. Þá sérstaklega skal einkunnagjöf fyrir skilaverkefni í þeim áföngum þar sem verkefni eru lögð fyrir oft á önn vera birt áður en nemendur skila næstu verkefnum.

Aðgangur að námsefni á ensku fyrir fyrsta árs nema

Vaka hyggst berjast fyrir því að nemendum á fyrsta ári sé tryggt að námsefni og verkefni séu birt á ensku sem og íslensku. Nemendur sem eru ekki íslenskumælandi hafa ekki haft tíma til að læra tungumálið þegar svo stutt er komið í námi og skal bæta því aðgengi þeirra að efni á ensku.

Aukin samskipti við kennara

Vaka hyggst hvetja kennara til að hlúa enn frekar að umræðuþráðum og spurningum frá nemendum á rafrænu formi. Nemendur skuli ekki þurfa að bíða dögum saman eftir mögulegum svörum frá kennurum varðandi verkefni og námsefni.

Bæting kynjahlutfalls í verkfræði

Vaka hyggst hvetja stjórnendur Verkfræði- og náttúruvísindasviðs til að huga betur að kynjahlutfalli í verkfræði, þar sem hallar mjög á hlutfall kvenna í mörgum námsleiðum.  Háskólinn skuli í samvinnu með sviðsráði finna frekari leiðir til að vinna úr þessum málum.

Langtímamarkmið

Húsnæðismál

Húsnæði VR-I og VR-II skal tekið alfarið í gegn. Aðstöðu nemenda þar er um margt ábótavant.

Aðgengi í VR-I og VR-II er einnig verulega ábótavant, nemendur sem nota nauðsynleg hjálpartæki á borð við hjólastóla hafa ekki nægilega gott aðgengi að stofum þar sem verklegt nám fer fram. Auk þess er lyftan í VR-II ekki nægilega stór, þar sem gera þarf ráð fyrir stuðningsaðila einstaklingsins í lyftunni.

Fjármál

Vaka hyggst standa að því að verkfræði- og náttúruvísindasviði verði veitt fjármagn til innkaupa á nauðsynlegum búnaði sem notaður er við verklega kennslu, en tækjakostur á sviðinu er löngu komin til ára sinna. Það bitnar jafnt á kennurum sem nemendum þegar unnið er með úreltan búnað.

Tengsl við atvinnulífið

Það er vilji Vöku að framboð á launuðu starfsnámi, jafnt á Íslandi sem erlendis, þar sem nemendur fái metnar einingar fyrir þá vinnu sem þeir inna af hendi eða fyrir önnur sambærileg launuð störf verði aukið. Vaka mun beita sér fyrir auknum sýnileika og kynningum á starfsnámi svo nemendur fái upplýsingar um hvaða tækifæri bjóðast á því sviði. Aukin áhersla skal lögð á námskeið og verkefni sem unnin eru í tengslum við atvinnulífið. Dæmi um slík námskeið og verkefni er vettvangsnám sem í boði er á Menntavísindasviði.

Varamenn