Ég er vinstri sinnuð ung kona í Vöku. En vitiði hvað?
Það skiptir ekki máli því Vaka skiptir sér ekki af landspólitík.

 

Ég er orðin svo drulluþreytt á frösum sem áttu mögulega rétt á sér fyrir 50 árum eða meira; „ertu bara gengin í Sjálfstæðisflokkinn?“, er Vaka ekki bara undirrót fyrir Sjálfstæðisflokkinn? og fleira. Heldur betur ekki, mínar skoðanir eru nákvæmlega jafn langt til vinstri þegar kemur að landspólitík eins og þær voru áður en ég fór í framboð fyrir Vöku. Við í Vöku fyllum allan skalann af stjórnmálaskoðunum um landspólitík Í Vöku er fólk sem hefur kosið Sjálfstæðisflokkinn, Vinstri Græna, Pírata, Viðreisn, Samfylkinguna og líklega alla hina flokkana, sumir hafa ekki einu sinni áhuga á pólitík og skila auðu. En hvað kemur það málinu við? Nákvæmlega ekki neitt.

Síðan ég tók sæti í Stúdentaráði fyrir hönd Vöku hefur fjársvelti háskólanna verið mikið í umræðunni. Allir hafa lagt sitt af mörkum til þess að berjast gegn fjársveltinu, og að sjálfsögðu hefur Vaka ekki látið sitt eftir liggja. Hvernig er maður hægri eða vinstri sinnaður í svoleiðis máli? Vilja ekki allir gott menntakerfi? Viljum við ekki að háskólinn okkar standi jafnfætis háskólum hinna Norðurlandanna þegar það kemur að peningaúthlutun? Ég hefði haldið það.

Drottning Stakkahlíðar, Jónína Sigurðardóttir, barðist lengi fyrir bættri klósettaðstöðu í Stakkahlíðinni. Klósettin þar eru ekki nógu stór fyrir alla hjólastóla. Það er ekkert eðlilegt við að komast ekki á klósettið yfir skóladaginn, það á að vera sjálfsagt mál fyrir alla, hvort sem þeir eru í hjólastól eða ekki. Eftir tveggja ára þrotlausa baráttu fékk Jónína í gegn að gengið yrði í framkvæmdir er varða bætta klósettaðstöðu. Staðsetur það Vöku til hægri eða vinstri?

María Skúladóttir gafst ekki upp á Félagsstofnun Stúdenta fyrr en hún fékk það í gegn að Háma í Stakkahlíð byði upp á heitan grænmetisrétt í hádeginu alla virka daga. . Það var eins og þau gerðu kröfu um að einstaklingar á Menntavísindasviði væru kjötætur. Mjög undarlegt allt saman en nóg um það. María gafst ekki upp fyrr en þetta fór í gegn. Hvort er það til hægri eða vinstri?

Þegar kemur að Vöku – félagi lýðræðissinnaðra stúdenta,
þá erum við öll í sama liði.
Okkar hlutverk er að berjast fyrir
hagsmunum stúdenta, gera skólann að betri stað  fyrir okkur
öll og komandi kynslóðir. Það eiga allir heima í Vöku.

Það er bara ekkert hægri sinnað við það að berjast fyrir hagsmunum stúdenta í ríkisreknum háskóla. En mér er líka alveg sama hvort vinir mínir í Vöku hallast til hægri eða vinstri, miðju eða skipta sér ekki af landspólitík. Saman berjumst við fyrir hagsmunum stúdenta og það munum við halda áfram að gera alveg sama hvað gengur á í landspólitíkinni.


Sandra Silfá Ragnarsdóttir

 

Þessi grein er hluti af haustblaði Vöku “GLAÐVAKANDI 2017” í blaðinu er að finna ýmsar greinar frá nýjum sem gömlum vökuliðum, viðtöl og ítarlegt viðtal við Bubba og Króla um tónlistina og margt fleira.

Ýttu hér til að skoða blaðið

Categories: Greinar