Tengsl sem nýtast alla ævi.

Innovit sem í dag heitir Icelandic Startups var stofnað á sínum tíma af nokkrum Vökuliðum í Háskóla Íslands. Þau vildu búa til vettvang þar sem góðar hugmyndir gætu fengið vængi. Háskólanemar áttu að hafa athvarf í skólanum þar sem í boði væri aðstaða og stuðningur til að gera alvöru fyrirtæki úr góðum viðskiptahugmyndunum. Það heppnaðist. Í dag er Icelandic Startups lykilaðili í íslensku sprotaumhverfi sem heldur meðal annars utan um verkefni á borð við Startup Reykjavík, Startup Energy Reykjavík, Startup Tourism og að sjálfsögðu Gulleggið. Í Gullegginu hafa hundruð háskólanema komið viðskiptahugmyndum sínum á framfæri og þróað þær áfram með aðstoð sérfræðinga. Fyrirtæki eins og Meniga, Clara, Karolina Fund, Videntifier, Controlant, geoSilica, Pink Iceland og mörg fleiri urðu til í kringum keppnina og hafa síðan náð mögnuðum árangri. Frumkvöðlar af öllum stærðum og gerðum hafa notið stuðnings Icelandic Startups og margir eru enn á leiðinni að sigra heiminn. Ræturnar liggja í þeim frumkvöðlaanda sem hefur einkennt starfsemi Vöku alla tíð. Mörg þekkjum við til að mynda sögur af Vökuliðum sem tóku málin í sínar hendur í upphafi aldarinnar með því að hanna og gefa út stúdentakort þegar Háskólinn var of lengi að bregðast við. Sömuleiðis mættu Vökuliðar með fjöltengi í byggingar Háskólans fyrir þá nýtilkomnar “far-tölvur” og skönnuðu inn gömul próf fyrir samnemendur sína áður en skólinn tók það upp á sína arma. Vaka hefur í gegnum áratugalanga sögu sína látið verkin tala, allt frá þeim tíma þegar Ísland var ennþá konungsríki, árið 1935.

Framtakssemin hefur orðið til þess að Vökuliðar hafa verið eftirsóttir starfskraftar í samfélaginu í áratugi. Þeir eru útsjónarsamt, lausnamiðað og hörkuduglegt fólk sem er tilbúið til að leggja á sig ómælda vinnu í þágu sameiginlegra hagsmuna. Á sínum tíma þegar ég var í forystusveit Vöku höfðu atvinnurekendur samband og spurðust fyrir um öfluga Vökuliða til vinnu. Ég er sjálfur einmitt einn af þeim. Eldri og reyndari Vökuliðar bentu á mig þegar forsvarsmenn Innovit höfðu samband í leit að starfskrafti. Ég var ráðinn stuttu síðar og fékk að vinna hjá félaginu næstu sex árin eftir það. Seinna var mér boðið starf hjá KPMG þar sem ég vinn í dag við að hjálpa frumkvöðlum, þroskaðri fyrirtækjum og stofnunum að horfa til framtíðar. Sennilega væri ég ekki þar í dag ef ekki hefði verið fyrir starfið í Vöku mörgum árum áður!

Við ykkur, nýja og tilvonandi Vökuliða vil ég því segja að það dýrmætasta sem þið takið með ykkur úr Háskólanum eru vinirnir og tengslin sem þið myndið á námsárunum. Þátttakan í Vöku býr til tengsl við öll svið og flestar deildir háskólans sem munu koma sér vel seinna meir. Fyrir utan hvað það er gaman að kynnast öflugu og skemmtilegu fólki með mismunandi bakgrunn og skoðanir! Það er ekki alltaf augljóst í upphafi hverju sjálfboðaliðastarf og þátttaka í félagsstarfi skilar hverjum og einum. Oft kemur það á ólíklegustu stundum. Vökuliðar eru alls staðar í samfélaginu og eiga allir minningar um framúrskarandi öflugt og skemmtilegt starf í góðum félagsskap. Óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf í Vöku með fjölbreyttum hópi fólks er tengslamyndun á hæsta stigi sem mun nýtast út ævina. Nýttu tækifærið!

 

Stefán Þór Helgason
Nýsköpunarráðgjafi hjá KPMG

Categories: Greinar