Jónína Sigurðardóttir skrifar:

Nám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands fer að mestu leiti fram í Stakkahlíð. Það vita ekki margir hvar þessi flotta og frábæra bygging er en við sem stundum nám við Menntavísindasvið elskum að vera þar. Sem dæmi um þetta má nefna að matsalur Stakkahlíðarinnar er meðal nemenda betur þekktur sem hjarta byggingarinnar.

Í Stakkahlíðinni er lítið og fallegt samfélag þar sem allir þekkja alla og kærleikur og nánd eru í fyrirrúmi. Þetta á ekki einungis við um samskipti á milli nemenda heldur á þetta einnig við um starfsfólk sviðsins sem gerir allt sem í sínu valdi stendur til þess að veita nemendum hjálparhönd.

Þó svo að Stakkahlíðinn sé frábær staður með góðann anda þá er því miður ekki allt þar eins og við myndum vilja hafa það. Þannig er mál með vexti að húsnæðið míglekur eins og Mossack Fonseca. Ekki hefur verið sett fjármagn í að laga þessa leka. Ekki króna.

Þetta gæti orðið til þess að elsku Stakkahlíðin okkar sem við berum svo sterk tengsl til verði að engu.
Eins og allir vita þá hefur leki sem ekkert er gert í það oft í för með sér rakaskemmdir og jafnvel myglusvepp. Myglusveppur getur verið stórhættulegur heilsu fólks. Myglusveppur getur haft bæði líkamlegar og andlegar afleiðingar. Einkenni sem fram geta komið hjá einstaklingum geta verið eins misjöfn og þeir eru margir.

Á meðfylgjandi mynd má sjá mögulegar rakaskemmdir við rafmagnstöflu í Stakkahlíð.

Sem dæmi um þessi einkenni má nefna svefntruflanir, þunglyndi, bólgur í líkama, nýrnasteina, minnisleysi og hjartatruflanir. Við, nemarnir sem notum húsið dagsdaglega, viljum helst forðast þessa hluti í lengstu lög. Þá viljum við heldur ekki að kennararnir okkar verði fyrir barðinu á þeim.

Umsjónarmaður fasteigna við Menntavísindasvið er allur af vilja gerður til þess að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að bæta stöðuna. Því miður er ekki til fjármagn til þess. Það hefur staðið til síðan 2008 að byggja nýtt húsnæði fyrir nemendur og starfsfólk Menntavísindasviðs en ekki er til fjármagn til þess að fara í þær aðgerðir. Það virðist heldur ekki vera til fjármagn til þess að halda Stakkahlíðinni við.

Vaka ætlar að berjast fyrir því að gerðar verði rakamælingar á húsnæðinu og farið verði í að laga lekana og þær skemmdir sem þegar hafa myndast. Til þess að nemendur við Menntavísindasvið geti stundað nám sitt samviskusamlega er það þeim í hag að mæta í kennslustundir í Stakkahlíðinni. Nemendur ættu að geta mætt í Stakkahlíðina og verið vissir um að heilsu þeirra sé ekki ógnað.