„Þetta er ekki neinn leikur lengur. Ekkert léttvægt grín eins og allt þitt líf hefur verið hingað til. Þú skalt nú taka þig saman í andlitinu og mannast upp. Þetta er risastórt stökk fyrir þig, beint ofan í djúpu laugina. Engir kútar í þetta sinn. Þú munt þurfa að leggja þig allan í þetta og fórna ýmsu. Gefa frá þér mikinn tíma, mörg laugardagskvöld sem hefðu farið í skemmtun og fjör. Setja í þetta mikla vinnu, þú munt þurfa að lesa og skrifa eins og þú eigir lífið að leysa. Jafnvel gefa frá þér þína eigin geðheilsu. Þetta verður erfitt, þú munt komast að því. Kæri vinur, þú ert að fara í Háskóla Íslands.“


Arnór Stefánsson og Rakel Sif Magnúsdóttir

Þeir sem eru að byrja í háskóla í fyrsta sinn hafa líklega einhverjar blendnar tilfinningar. Vita kanski ekki við hverju er að búast eða hvernig námið mun fara fram. Sumir þekkja voða fáa eða jafnvel enga sem ganga í skólann.

Að fara inn í nýjar aðstæður og takast á við nýja hluti er vissulega eitthvað sem tekur á, en enginn getur samt neitað því að það er verulega þroskandi. Einhverjar efasemdir gætu vaknað í hugum sumra varðandi námið en fyrir alla muni þá vonum við að einræðan hér fyrir ofan sé ekki að óma í kollinum á neinum.

Við sem skrifum þessa grein erum nýnemar í Háskóla Íslands og okkur langar að segja frá okkar reynslu á skólanum. Við erum einnig meðlimir í Vöku, félagi lýðræðissinnaðra stúdenta, og ætlum við líka að kynna félagið og hvernig við höfum upplifað okkur í því þessa tvo mánuði sem við höfum verið í háskólanum.

Sem nýnemar kom það okkur á óvart hversu mikið félagsstarf er í gangi í Háskóla Íslands. Í hverju fagi er sérstakt nemendafélag, í sálfræði kallast það Anima, í hjúkrunarfræði kallast það Curator og í stjórnmálafræði kallast það Politica ef eitthvað á að nefna. Þessi nemenda félög skipuleggja ýmsa viðburði fyrir nemendur að taka þátt í. Nýnemadagurinn, sem haldin var í byrjun skólans, er eitt dæmi um það. Hann var heldur betur góð skemmtun, hristi upp í mannskapnum og braut ísinn milli nemenda. Einnig er árlega haldin Oktoberfest hátíðin og mega
allir nemendur mæta á hana. Langflestir segja að hún hafi verið brjálæðislega skemmtileg og hjá sumum er sú staðreynd það eina sem þeir muna eftir frá því kvöldi.

Ef háskólanemandi hefur áhuga á að taka þátt í enn meira félagslífi
þá er stórlega mælt með að taka þátt í stúdentapólitíkinn.
Okkur var boðið að ganga til liðs við Vöku,
sem er eitt af tveimur hagsmunafélögum stúdenta við Háskóla Íslands.

Stemmingin í kringum Vöku heillaði okkur strax þegar við fréttum af félaginu. Þetta er hópur fólks sem hefur brennandi áhuga á náminu í skólanum og einnig hlutunum sem skiptir það máli, s.s. hagsmunum nemendana. Að vera hluti af þessum félagsskap heillaði okkur strax. Það eru ekk allir sem láta pólitíkina sig varða og láta félagslega hlutan sér nægja.
Vaka gefur manni nefninlega tækifæri á að kynnast fólki innan skólans á fjölbreyttum sviðum, í því felast töfrar félagsins.

Vaka fékk okkur til að líta á háskólanámið frá öðru sjónarhorni og í raun ýtti undir metnaðinn fyrir náminu. Það sem stendur upp úr hingað til af reynslu okkar í Vöku er haustferðin, sem var virkilega vel heppnað hópefli. Ferðinni var heitið upp í félagsheimilið Þingborgir sem er rétt fyrir utan bæjarmörk Selfoss. Þangað er
rúmlega klukkutíma keyrsla og fengum við bílfar með Vökuliðum sem við þekktum alls ekki. Þegar við komum á áfangastað var eins og við höfðum þekkst frá barnaskóla. Í Þingborgum komu saman fimmtíu manns og þá hófst skemmtunin fyrir alvöru. Skipulagðir voru leikir og þrautir sem reyndu á samvinnu og keppnisanda. Skipt var í fjögur lið og keppni var haldin á milli
liðanna. Grunnskólakrakkar myndu eflaust missa sig yfir þessu prógrammi, en ég leyfi mér að tala fyrir allan hópinn og segi að við heldur betur nutum okkur í botn. Með hjálp áfengra veiga þá var skemmtunarskalinn sprengdur og fram á rauða nótt var fjör og gaman. Það var sungið og spilað, misgáfulegar samræður fóru fram, og eftir hefðinni fór fólk afsíðis
í trúnó. Einnig voru tveir heitir pottar úti og í þeim vorum við hátt upp í þrjá klukkutíma, syngjandi og spjallandi. Eftir haustferðina getur maður með sanni sagt að fræjum að sterkri vináttu hafði verið komið fyrir í kjarngóðum jarðveg.

Það er mikil spenna sem fylgir því að byrja í háskólanámi og í raun verulega þroskandi. Námið gefur manni nefninlega ótrúlega mikið. Það er mikil vinna sem fer í lærdóminn en það sem maður uppsker er það sem skiptir máli. Í því liggur munurinn á að vera ánægður eða hamingjusamur. Hver sem er getur í raun verið ánægður.

Ef þú borðar góðan mat með góðum vinum eða gerir eitthvað skemmtilegt eins og að fara í
bíó, verður maður ánægður í svolitla stund, en það varir bara skamman tíma. En það að vera hamingjusamur, það er allt annað.

Maður þarf að vinna fyrir því. Setja sér markmið og ná einhverjum áfanga. Oft þarf maður að fórna ánægjunni til að ná sínu markmiði. Setja mikla vinnu í námið og þegar þú veist að þú hefur lagt þig allan fram. Virkilega lagt þitt að mörkum og síðan uppskorið alla erfiðis vinnuna. Þá finnur maður fyrir hamingju.

 

 

Þessi grein er hluti af haustblaði Vöku “GLAÐVAKANDI 2017” í blaðinu er að finna ýmsar greinar frá nýjum sem gömlum vökuliðum, viðtöl og ítarlegt viðtal við Bubba og Króla um tónlistina og margt fleira.

Ýttu hér til að skoða blaðið

Categories: Greinar