Menntavísindasvið

Jóna Guðbjörg Ágústsdóttir
1. sæti
Tómstunda- og félagsmálafræði
Ísabella Rún Jósefsdóttir
2. sæti
Uppeldis- og menntunarfræði
Sóley Arna Friðriksdóttir
3. sæti
Leikskólakennarafræði

Heilsuspillandi umhverfi

Veturinn 2019 var Stakkahlíðin rakamæld að ósk starfsfólks og stúdenta. Nú þegar nemendur eru mæta í meiri mæli í Stakkahlíð og í Skipholt er kominn tími til að taka aftur út aðstöðuna og rakamæla. Gera þarf ráðstafanir í byggingunum þannig að þær ógni ekki heilsu nemenda og starfsfólks. Vaka mun sjá til þess að nemendur séu upplýstir um stöðu mála, fái að vita hvaða ráðstafanir séu gerðar og hvaða úrræði þeim standi til boða.

Flutningur Menntavísindasviðs

Undanfarin ár hefur staðið til að færa Menntavísindasvið úr Stakkahlíð í nýtt húsnæði vegna rakaskemmda. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra hét því að nýtt húsnæði Menntavísindasviðs myndi rísa innan fjögurra ára í Vatnsmýrinni. Hins vegar hefur Háskóli Íslands verið að íhuga að festa kaup á Hótel Sögu og yrði Menntavísindasvið að öllum líkindum fært þangað. Vaka vill að nemendur séu upplýstir um þær hugmyndir og að afstaða og skoðanir þeirra heyrist vegna þessa máls. Vaka mun standa vörð um að í framtíðarhúsnæði sviðsins verði gott aðgengi tryggt fyrir fjölbreyttan hóp nemenda.  

Aðgengi

Vaka mun halda áfram að beita sér fyrir bættu aðgengi til þess að stuðla að jöfnum rétti allra til náms. Það er ósk okkar að gerð verði úttekt á húsakostum sviðsins með tilliti til hjólastólaaðgengis og aðgengi sjónskertra. Vaka gerir sér grein fyrir því að starfsemi sviðsins verði færð á næstu árum og því viljum ráðast á raunhæfar framkvæmdir sem snúa að þessu. 

Lesaðstaða í Stakkahlíð

Það vantar viðeigandi aðstöðu til lestrar og hópavinnu í Stakkahlíð. Nemendur þurfa að eiga kost á slíkri aðstöðu á tilsettum opnunartíma byggingarinnar. Þeir nemendur sem kjósa að læra í byggingunni gera það á göngum hennar eða á bókasafninu. Bókasafninu er lokað síðdegis á virkum dögum og hafa nemendur því hvorki not af námsrými þess eftir lokun né um helgar. Bókasafnið leigir afnot af lesherbergi gegn gjaldi. Vaka er alfarið á móti því að nemendur þurfi að borga fyrir afmarkað lesrými þegar engin önnur sambærileg aðstaða er til staðar. Vaka heldur áfram að berjast fyrir því að tryggja nemendum Menntavísindasviðs almennilega les- og hópavinnuaðstöðu og mun heyja þá baráttu þar til tilsettu marki er náð. 

Háma í Stakkahlíð

Vaka vill sjá fleiri grænmetis og vegan valmöguleika í Hámu í Stakkahlíð með stækkandi hópi fólks sem kýs að minnka neyslu sína á kjöti og dýraafurðum. Einnig viljum við fækka plastumbúðum, hafa fjölbreyttara úrval af mat og bæta innihaldslýsingar fyrir heita rétti, súpur og salatbar. 

Næringarríkari matur í sjálfsala Stakkahlíðar og Skipholts

Það skiptir miklu máli að á nemendur hafi aðgang að mat og drykkjum á meðan byggingar sviðsins eru opnar. Þegar Háma lokar þá grípa margir nemendur til þess að kaupa sér mat eða drykki í sjálfsölum sviðsins en þörf er á næringarríkara úrvali í þeim. Vaka telur mikilvægt að bæta úrval af vegan mat í sjálfsölunum auk þess að hafa ekki einungis sælgæti og gos í boði. Jafnframt viljum við fá nýjar vatnsvélar í Hamar og Klett sem og í byggingu sviðsins í Skipholti.

Upptökur á fyrirlestrum

Í flestum námskeiðum á Menntavísindasviði er hægt að nálgast upptökur af fyrirlestrum. Því miður á þetta ekki við um öll námskeið og er nemendum því stórlega mismunað innan sviðsins sem er óboðlegt. Þrýsta þarf á að allir fyrirlestrar í öllum deildum Menntavísindasviðs verði teknir upp og séu nemendum aðgengilegir yfir alla önnina. Vegna heimsfaraldursins þurfti allt nám að færast yfir í fjarnám og því hefur kennsla þróast á þann veg að fyrirlestrar eru teknir upp og aukin vendikennsla á sér stað. Vaka vill berjast fyrir því að sú þróun gangi ekki til baka og verði bætt í samráði við nemendur. 

Staðnemar

Staðnemum á Menntavísindasviði hefur fjölgað ört síðustu ár og tekur Vaka þeirri þróun fagnandi. Þessari nýtilkomnu eftirspurn hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Vaka vill að nemendur fái tækifæri til láta raddir sínar heyrast og að hlustað sé á upplifun nemenda sviðsins. 

Fjarnemar

Fjarnemar eru stór hópur á Menntavísindasviði en það þarf að koma mun betur til móts við fjarnema en gert er nú. Staðlotur eru oft illa skipulagðar og erfitt fyrir fjarnema sem búsettir eru á landsbyggðinni að útvega sér gistingu og akstri á meðan staðlotum stendur. Við í Vöku berjumst fyrir því að staðlotur séu skilvirkari og betur skipulagðar með tilliti til fjarnema.

Jafnframt berst Vaka fyrir því að fyrirlestrar og tímar séu teknir upp í góðum gæðum til þess að koma betur til móts við fjarnema. Fjarnemar ættu heldur ekki að þurfa að sinna þyngri verkefnum en staðnemar fyrir það eitt að kjósa fjarnám og er Vaka tilbúin að berjast fyrir því. 

Breytingar á námi í leikskólakennarafræði

Nú hafa orðið umtalsverðar breytingar á skipulagi og uppsetningu á námi í leikskólakennarafræði. Nýtt kerfi, Háskólamorgnar, tóku gildi síðastliðið haust sem margir nemendur gagnrýndu hart. Nú í vor fer fram könnun um viðhorf leikskólakennaranema til þessa nýja kerfis. Hyggst Vaka því berjast fyrir betri úrbótum í sambandi við Háskólamorgnana og að nemendur taki virkan þátt í þessum umfangsmiklu breytingum á námi sínu. 

Skipulag í vettvangsnámi 

Undanfarin ár hafa nemendur lent í vandræðum með skipulag vettvangsnáms síns. Þeir vita seint um sína vettvangsstaði og koma því oft illa undirbúnir í sitt vettvangsnám. Vettvangstímabil taka stóran part af önn nemenda og skapar ójafnvægi í vinnuálagi. Vaka vill að Menntavísindasvið kanni reynslu nemenda af vettvangsnámi sínu og skipulagi þess með það að leiðarljósi að bæta umgjörð vettvangsnáms alls sviðsins.

Áfangaframboð

Vaka vill berjast fyrir því að allar deildir Menntavísindasviðs sitji áfanga um kynjafræði, einelti og eineltisforvarnir, jafnrétti og fordóma annað hvort sem skylduáfanga eða í bundnu vali. Það er eitthvað sem kemur öllum nemendum við á Menntavísindasviði og eitthvað sem margir af okkar nemendum munu þurfa að takast á við í sínu starfsumhverfi í framtíðinni. 

Vaka vill að skyldunámskeið nemenda endurspegli námsleið þeirra og væntanlegs starfsvettvangs og leggja þarf áherslu á fræðilega og árangursríka kennslu. Sem dæmi ætti skyldunámskeið leikskólakennaranema að snúast um kennslu fyrir börn á leikskólaaldri eða yngri barna kennslu. Enn fremur er þörf á nútímalegri áherslum í námi og kennsluaðferðum á Menntavísindasviði þannig að námið undirbúi nemendur fyrir áskoranir framtíðarinnar. Vaka vill stuðla að fjölbreyttara og meira skapandi námsmati fyrir nemendur. 

Aukið aðgengi foreldra að námi

Aðgengi foreldra að námi er heft með því að hafa skyldumætingu. Vaka leggur til að skyldumæting eftir klukkan 16:00 verði lögð niður og að eftir þann tíma séu kennarar skyldugir til þess að taka upp fyrirlestra. Einnig er mikilvægt að engin verkefnaskil eða próf séu í stundatöflu eftir klukkan 16:00 á daginn og að rafræn próf séu opin fram á kvöld. 

Vaka vill einnig leggja áherslu á að foreldrum sé sýndur skilningur á fjarveru í kennslustundum vegna veikinda barna og því ítrekum við mikilvægi aðgengi að upptökum úr fyrirlestrum. Vaka ætlar að berjast fyrir ungbarnaherbergi/foreldrastofu og bættri skiptiaðstöðu í Stakkahlíð. Það er mikilvægt skref fyrir sviðið enda er stór hluti nemenda á sviðinu foreldrar. Enn fremur viljum við fá fleiri barnastóla í Hámu og bæta við leikkrók fyrir börn nemenda. 

Starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun

Þessi þarfa námsleið er ekki föst í fjárlögum HÍ og á því oft í hættu að vera felld niður sem er óviðunnandi og óréttlátt vegna þess að þetta er eina námið í boði fyrir þennan hóp við Háskóla Íslands. Námsleiðin er eingöngu kennd á tveggja ára fresti og komast þá aðeins tólf nemendur að og því myndast oft á tíðum langir biðlistar eftir inngöngu í námið. Þessi staða er algjörlega ólíðandi, Vaka vill að námsleiðin verði kennd árlega til þess að stytta biðlista. Vaka mun halda áfram að berjast fyrir því að þetta nám haldist innan sviðsins og þróun þess. 

Sálfræðiráðgjöf á Menntavísindasviði

Nemendur sviðsins ættu að fá kynningu á þeim úrræðum sem eru í boði í sambandi við sálfræðiþjónustu háskólans. Vaka berst fyrir því að nemendur sviðsins fái kynningu á sálfræðiþjónustunni og að boðið sé upp á hóptíma og námskeið á vegum Sálræktar upp í Stakkahlíð.

Varamenn