Kennum í takt við tímann

Hvernig stendur á því að stærsta menntastofnun landsins hefur ekki fylgt þeirri tækni- og nútímavæðingu sem hefur átt sér stað í samfélaginu? Háskóli Íslands hefur ekki staðið undir óskum nemenda alltof lengi hvað varðar nútímavæðingu kennsluhátta á Verkfræði- og náttúruvísindasviði og tími er kominn til að breytingar eigi sér stað.

Síðan við hófum nám okkar við Háskóla Íslands höfum við rætt við fjölmarga nemendur á Verkfræði- og náttúruvísindasviði sem taka allir undir þá skoðun að kennsluhættir eru löngu orðnir úreltir og tímabært er að Háskóli Íslands kenni í takt við tímann. Til að mynda neyðast nemendur alltof oft til þess að leita sér annarra leiða til að nálgast kennsluefnið heldur en að notast við þær leiðir sem skólinn býður upp á.

Við í Vöku, Hagsmunafélagi stúdenta viljum að kennarar séu skyldugir til að taka upp fyrirlestra sína og að hvati sé til staðar fyrir kennara til að nýta sér fræðslu um hvernig þeir megi nútímavæða og bæta kennsluna. Oft á tíðum eru kennarar áhugasamir um að koma betur til móts við nemendur en hafa hreinlega ekki hvatann eða þekkinguna til þess að framkvæma það. Nefna má vendikennslu sem gott úrræði en nemendur hafa hrósað slíkum kennslumyndböndum frá erlendum stofnunum þar sem þeir geta farið yfir efnið á sínum hraða.

Eitt af okkar helstu forgangsmálum er einnig að tengja nemendur við atvinnulífið að loknu námi. Við erum öll í háskólanum til þess að útskrifast með gráðu en hvað gerum við svo? Hvernig er hægt að auðvelda nemendum stökkið yfir í atvinnulífið? Með aukna samstarfi við íslensk fyrirtæki, starfsnámi og fleiri áföngum sem tengjast beint inn í atvinnulífið er hægt að búa til tækifæri sem standa nemendum til boða á meðan námi stendur.

Ofangreind markmið eru ekki skot út í bláinn. Um er að ræða raunsæ og framkvæmanleg markmið sem við í Vöku ætlum að fylgja eftir með einurð og festu.

-Einar Halldórsson og Guðrún Karítas Blomsterberg

Einar er nemi í lífefna- og sameindalíffræði og skipar 2. sæti á lista Vöku á verkfræði- og náttúruvísindasviði og Guðrún er nemi í iðnaðarverkfræði og skipar 1. sæti á lista Vöku á verkfræði- og náttúruvísindasviði fyrir stúdentaráðskosningar Háskóla Íslands.

Fleiri greinar