Kennslumál

Fjölbreyttari kennsluhættir í takt við tímann

Sömu kennsluhættir hafa tíðkast við Háskóla Íslands síðan hann var stofnaður. Tími er kominn til að skólinn aðlagist breyttum tímum. Fjöldinn allur er til af rannsóknum sem styðja við ágæti ákveðinna kennsluhátta sem starfsmenn Háskóla Íslands tileinka sér flestir ekki. Brjóta verður upp fyrirlestraformið og þrýsta á að kennarar tileinki sér fjölbreyttari kennsluhætti, svo sem vendikennslu og fleira.

Upptaka fyrirlestra

Upptaka fyrirlestra stuðlar að jafnrétti til náms og eykur möguleika til að stunda nám við Háskóla Íslands óháð búsetu, fjölskylduhögum og heilsufari. Þá eiga nemendur sem missa af kennslustundum ekki að tapa mikilvægum námsgögnum og þekkingu sem hvergi er aðgengileg annars staðar. Nú er búið að innleiða upptöku á fyrirlestrum í flest öllum deildum og vill Vaka sjá til þess að þessu verði haldið áfram. 

Aukin áhersla á gæði kennslu umfram rannsóknir í mati á frammistöðu kennara 

Í dag er mikil áhersla lögð á rannsóknir við ráðningar og mat á frammistöðu kennara við Háskóla Íslands. Vaka vill að kennsla fái aukið vægi til að tryggja að gæði kennslu séu fullnægjandi og í samræmi við stefnu hvers sviðs.

Einingar í samræmi við vinnuálag

Í ECTS-kerfinu er skilgreint hve mikil vinna á að liggja að baki hverri einingu. Í fjölmörgum áföngum er þessu ekki fylgt og úr því þarf að bæta. Nemendur eiga rétt á einingafjölda í samræmi við vinnuframlag sitt. Einnig skal gera nemendum það auðveldara að reikna út hvort vinnuframlag þeirra sé í samræmi við einingar, til dæmis með sértilgerðri reiknivél. Myndi þetta stuðla að skilvirkni nemenda og yrði það auðveldara til þess að sinna aðhaldshlutverki. 

Nútímavæðing háskólans

Í stefnu Háskóla Íslands 2016 til 2021 er lögð áhersla á þróun kennsluhátta, nýsköpun í kennslu og að auka skuldbindingu nemenda við nám sitt. Er þar sérstaklega minnst á upptökur fyrirlestra og fjarnám. Einnig eru starfsmenn hvattir til starfsþróunar og endurmenntunar. Vaka vill að þessu verði fylgt eftir.

Einkunnum sé skilað á réttum tíma

Mikilvægt er að kennarar virði skilafrest einkunna í lokaprófum sem og verkefnum yfir önnina. Vaka vill auka eftirfylgni og aðhald með einkunnaskilum. Við teljum mikilvægt fyrir nemendur að fá sundurliðun á prófum og verkefnum þannig að þau fái raunverulega tilfinningu fyrir því hvernig þau hafi staðið sig á prófum og verkefnum.

Kennarar mæti í próftöku

Ekki er kveðið á um það í reglum Háskóla Íslands að kennari skuli mæta í próf á prófdegi. Einungis eru tilmæli þess efnis að kennari skuli mæta þegar próf eru haldin. Þessu þarf að breyta. Ef kennari sér sér ekki fært að mæta eða ekki næst í hann símleiðis ættu öll vafaatriði að vera skýrð nemanda í hag.

Réttindi fjarnema

Fjarnemar við Háskóla Íslands eiga rétt á sömu þjónustu og aðrir nemendur skólans. Passa verður sérstaklega upp á stöðu þeirra innan háskólans, einkum þegar kemur að staðlotum og skipulagi þeirra. Gæta verður að upptökubúnaði og myndrænni framsetningu námsefnis fyrir fjarnema, fylgja þarf þeirri vinnu eftir.

Notkun prófnúmera

Með því að kennarar noti prófnúmer er stuðlað að jafnrétti í próftöku. Vaka krefst þess að prófnúmer séu undantekningarlaust notuð í öllum deildum háskólans. 

Prófsýningar

Samkvæmt reglum Háskóla Íslands á að halda prófsýningar vegna prófa en þess er mjög ábótavant innan skólans. Við viljum að þessu sé fylgt eftir þar sem það er gríðarlega mikilvægt fyrir nemendur að kennarar fari yfir próf með þeim. 

Sjúkra- og endurtektarpróf haustannar í janúar

Mikilvægt er að berjast fyrir því að sjúkra- og endurtektarpróf fyrir haustönn séu haldin í janúar. Miklir sigrar hafa náðst í þeirri baráttu en enn er langt í land og mikilvægt er að stúdentar láti í sér heyra. Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði hefur tilraunaverkefni verið í gangi þar sem prófin eru haldin í janúar og hefur það reynst vel. Við munum þrýsta á stjórnsýslu háskólans til að fá þetta í gegn. 

Aðgengi stúdenta með annað móðurmál en íslensku 

Vaka vill að í þeim áföngum á fyrsta ári þar sem eru nemendur sem ekki eru íslenskumælandi verði boðið upp á enskar þýðingar á glósum kennara og verkefnum, þar sem þeir nemendur hafa ekki haft tíma til að læra tungumálið.

Kennslumál
Alþjóðastefna
Atvinnumál
Doktorsnám
Félagstofnun stúdenta
Fjármál Háskóla Íslands
Fjölskyldumál
Hinsegin mál
Húsnæðis- og Aðstöðumál
Jafnréttismál
Kennslumál
Lánasjóðsmál
Samgöngumál
Umhverfismál