Hugvísindasvið

Þórólfur Sigurðsson
1. sæti
Sagnfræði
Gunndís Eva Baldursdóttir
2. sæti
Sagnfræði
Lena Stefánsdóttir
3. sæti
Danska

Réttindi nemenda í prófum

Notkun prófnúmera er lítil sem engin á Hugvísindasviði en þau eru til staðar til þess að tryggja hlutleysi kennara við endurgjöf á prófum. Mikilvægt er að stúdentar séu meðvitaðir um réttindi sín og þær reglur sem kennurum ber að fylgja. Það er mikilvægt að kynna þessi réttindi betur fyrir stúdentum, sem og gæta þess að þeim sé framfylgt af kennurum.

Endurgjöf verkefna

Samkvæmt reglum skólans eiga einkunnir að berast stúdentum eigi síðar en tveim vikum eftir skil, að prófum í desember undanskildum en þar eru tímamörkin þrjár vikur. Það er því miður allt of algengt að þessu sé ekki framfylgt. Það er mikilvægt að kennarar skipuleggi verkefni í takt við það vinnuálag sem þeir telja sig ráða við að fara yfir innan tímamarka og framfylgja þessum reglum. 

Endurtektarpróf

Samanber 57. grein reglna Háskóla Íslands segir að stúdentar hafi rétt til þess að þreyta próf í hverju námskeiði tvisvar. Falli nemandi eða sjái sér ekki fært um að þreyta próf sé það réttur nemenda til að taka það aftur þegar próf er haldið í viðkomandi námskeiði, eigi síðar en innan árs. Þetta þarf að endurskoða með tilliti til þess að ekki allir hafa tök á að bíða í ár eftir að þreyta próf í áfanganum, en eins og staðan er í dag eru endurtektarpróf ekki aðgengileg stúdentum nema undir sérstökum kringumstæðum. 

Gagnsæi í kennsluskrá og samræming álags

Það er mikilvægt að kennarar fari vel yfir kennsluskrá í upphafi annar og gæta þess að leslisti, verkefni og kröfur séu skýrar. Einnig er mikilvægt að stúdentar hafi aðgang að fullum leslista strax í upphafi annar svo þeir hafi betri tök á að skipuleggja nám sitt. Því miður er það allt of algengt að vinnuálag í áföngum samræmist ekki einingafjölda og teljum við mikilvægt að sviðsráð beiti sér í auknum mæli fyrir samræmingu þar á milli.  

Jafn aðgangur til náms

Stúdentar hafa ólíkar þarfir og þeim ber að mæta. Síðasta árið hafa allar deildir tekið upp fjarkennslu við mikinn fögnuð stúdenta, enda verið baráttumál til lengri tíma. Við teljum það gríðarlegt hagsmunamál að halda þessu góða starfi áfram og nema ekki staðar hér ef HÍ21 stefnan á að verða að veruleika. Vendikennsla og upptaka fyrirlestra veitir öllum stúdentum jafnt sæti við borðið. Með þeim kennsluaðferðum sem hafa verið við lýði síðastliðið ár í bland við hefðbundna kennslu bætum við lífsgæði stúdenta.  

Aðbúnaður

Lengi hefur verið ósætti með opnunartíma Hámu í Árnagarði og 2020 varð enn einn skellurinn þegar Hámu var varanlega lokað. Við teljum það mikið hagsmunamál að gerð verði aðstaða í Árnagarði þar sem stúdentar geta verslað sér veitingar á milli kennslustunda. Þennan vanda má einnig finna í Aðalbyggingu Háskóla Íslands, þar er engin kaffiaðstaða og hefur ekki verið. Í hinu stórglæsilega húsi Veröld má hins vegar finna einkarekið kaffihús, sem ekki býður upp á hagstæð kjör fyrir stúdenta. Þar teljum við mikilvægt að gripið verði inn og Félagsstofnun stúdenta taki við þeim rekstri ef ekki er hægt að veita stúdentum góð kjör. 

Sviðsráð

Hlutverk sviðsráðs Hugvísindasviðs er að standa vörð um hagsmuni stúdenta og er tengiliður námsmanna við stjórn sviðsins. Ráðið hefur verið í löngum dvala sem illa hefur gengið að vekja. Samskipti sviðsráðs við stúdenta þarf að bæta og betur þarf að kynna starfsemi og tilgang ráðsins. Einnig teljum við mikilvægt að sviðsráðið beiti sér í auknum mæli fyrir hagsmunum stúdenta. Þar er enn mikil vinna framundan þar sem lítið púður hefur verið sett í þau mál. 

Varamenn