Inga María Hlíðar Thorsteinson skrifar:
Sífellt færist í aukana að hjúkrunarnemar fari út í sjálfboðaliðastarf meðan á náminu stendur. Algengast er að þeir fari sumarið eftir þriðja árið en þá hafa hjúkrunarnemar öðlast leyfi til að sinna ýmsum hjúkrunarverkum inná spítulum og þá er hægt að nýta hjálparstarfið sem val á 4. ári í náminu. Hópurinn þarf sjálfur að hafa samband við hjálparsamtök í því landi sem hann hefur áhuga á að starfa í og skipuleggja ferðina upp á eigin spýtur. Einnig bjóða sumar ferðaskrifstofur eins og Kilroy upp á ýmsar sjálfboðaliðaferðir.
Sumarið 2015 sinntu þrír hópar í hjúkrunarfræði heilbrigðistengdu sjálfboðaliðastarfi í þremur löndum. Eins og við mátti búast var starfið gjörólíkt milli landa og samtaka. Þó áttu allir hópar það sameiginlegt að finna fyrir miklum menningarmun í sambandi við framkomu og viðhorf starfsfólks til sjúklinganna, og þakklæti fyrir aðstæðurnar á Íslandi.

Kenýa

Bryndís, Gréta María, Helena, Ragnhildur, Signý, Sigþór og Sóley.

12348235_10153906120807323_265750933_nHópurinn vann á Tigoni District Hospital sem þjónustar fátækrahverfi í úthverfi Nairobi. Starfið fór ýmist fram inni á spítalanum eða á heilsugæslustöð. Þau fylgdust með fæðingum, sinntu barna- og mæðravernd, skiptu á og hlúðu að sárum, tóku til lyf í apótekinu og margt fleira. Einnig heimsóttu þau ABC barnaþorpið. Sú heimsókn stóð upp úr en allir í hópnum eru nú orðnir stuðningsforeldrar hjá ABC-hjálparstarfinu. Þá segir Helena að „eftir heimsókn okkar í ABC barnaþorpið höfum við lært að sem einstaklingar getum við ekki breytt heiminum en það að hjálpa einum getur breytt öllu fyrir hann og komandi kynslóðir.“

Sambía

Auður, Bára, Eva Karen, Hildur Ýr, Kristín, Sandra María og Valgerður.

12348492_10153906120812323_963860649_nHópurinn fór á vegum African Impact en sjálfboðaliðastarfinu þar er skipt niður í þrjár deildir: kennslu, íþróttir og heilbrigðisþjónustu. Fyrir hádegi vann hver hópur í sinni deild en eftir hádegi fóru allir í mismunandi verkefni og voru t.a.m. með enskukennslu, listaklúbb, leik og stærðfræðikennslu. Þær voru í heilbrigðisverkefninu fyrir hádegi og aðstoðuðu heimamenn við ýmis verkefni inn á heilsugæslu og elliheimilum en fóru einnig í heimavitjanir til nýbakaðra mæðra og heimahjúkrun. Þær tóku lífsmörk, gáfu lyf, bjuggu að sárum, gerðu næringarmat, gáfu næringardrykki og margt fleira. Einnig tóku þær þátt í forvarnarverkefni og héldu fræðslu til unglinga á aldrinum 15-18 ára um HIV, þar sem einn af hverjum fjórum eru með HIV í Livingstone. Þær voru einnig með fræðslu um almenna heilsu, legháls- og brjóstakrabbamein. „Það er haldið vel utan um sjálfboðaliðana hjá African Impact, starfið er vel skipulagt og passað er vel upp á öryggi allra. Þetta er reynsla sem við munum aldrei gleyma og gaf okkur mikið“ segir Sandra.

Kambódía

Berglind Anna, Freyja Dís, Inga María, Kristín Erla, Kristín Lovísa, Sandra Lind og Sigurbjörg Gyða.

10521792_10152808644101987_81389612682611973_nHópurinn fór út á vegum Greenway eða The Green Lion og var á spítala í litlu þorpi, Samrong, sem þjónustaði um 200.000 manns. Öll meiriháttar veikindi og slys voru send til höfuðborgarinnar en fæðingar, minniháttar aðgerðir s.s. sprunginn botnlangi og keisarafæðingar, lyfjagjafir, bráðaþjónusta og sáraumbúnaður fóru þarna fram. Hópnum var skipt niður á deildir innan spítalans, og var mest á skurð- og fæðingardeild. Stelpurnar fengu ýmist að sjá aðgerðir, sáraumbúnað og/eða fæðingar. Á þessum spítala var ekki mikil þörf fyrir fleiri hendur og því gekk sjálfboðaliðastarfið helst út á að upplifa annars konar menningu. Í Kambódíu ríkir gríðarlega mikil spilling og fátækt en mikil uppbygging á sér stað í kjölfar borgarastríðsins þar í landi.

 

Mín upplifun

10385432_10152804952901987_3397520485778881358_nÉg gerði mér fyllilega grein fyrir því áður en ég lagði af stað í sjálfboðaliðastarfið að ég kæmi ekki til með að breyta heiminum á þessum þremur vikum sem ég myndi starfa inná spítala í litlu sveitaþorpi í Kambódíu. Ég vildi fá að kynnast ólíkri menningu og heilbrigðisstarfsemi í þeim tilgangi til að koma umburðarlyndari heim, með opnara hjarta, reynslunni ríkari og verða færari í mínu starfi fyrir vikið. Þó svo að þessar milljónir sem við greiddum samtals til að fara út hefðu getað gert miklu meira gagn en nokkurn tímann okkar hendur og verk í þennan stutta tíma sem við vorum úti, er reynslan sem við fáum af starfinu svo dýrmæt að hún verður aldrei metin til fjár. Að fá að sjá og upplifa aðstæðurnar hér færði mér svo miklu meira en hefði nokkurn tímann getað gefið af mér. Reynslan færði mér þakklæti og nægjusemi, eitthvað sem marga skortir í hinum Vestræna heimi. Íbúarnir eru kurteisir og börnin sýna foreldrum sínum, kennurum og eldra fólki, aðdáunarverða virðingu. Ég varð hugfangin af fólkinu og menningunni og reyndist hafa miklu meira gagn af þessu hjálparstarfi en ég hafði nokkurn tímann búist við.

Inga María Árnadóttir, 4. árs nemi í hjúkrunarfræði