Heilbrigðisvísindasvið

Kamila Antonina Tarnowska
1. sæti
Næringafræði
Embla Rún Björnsdóttir
2. sæti
Læknisfræði
Morgan Marie Þorkelsdóttir
3. sæti
Sálfræði

Klínískt nám

Álag nemenda í klínísku námi er allt of mikið og þarf að halda betur utan um það, þar sem ekki er borin virðing fyrir grundvallarréttindum fólks. Lítið sem ekkert svigrúm er fyrir veikindum eða óvæntum uppákomum í verknámi. Vaka vill auka svigrúm í klínísku námi og setja þak á hversu mörgum klukkustundum í viku nemandi þarf að skila af sér í klínísku námi sem og að hvíldartími sé virtur.

Launað starfsnám 

Vöku þykir ekki ásættanlegt að nemendur séu í skyldugu ólaunuðu starfsnámi á meistarastigi. Okkur þykir úr takti við tímann að nemendur í meistaranámi á heilbrigðisvísindasviði séu nýttir sem lág- og ólaunað vinnuafl á heilbrigðisstofnunum. Vaka vill að menntun nemenda verði metin til verðleika í starfi þeirra.

Starfsreynsla metin til eininga

Við í Vöku viljum að sá möguleiki verði skoðaður að unnin störf, sem tengjast beint tilteknu námssviði, verði metin til eininga. Um væri að ræða umbunarkerfi þar sem þeir nemendur sem treysta sér til að vinna fá starfsreynslu sína metna til eininga eða metna sem hluta af starfsnámi.

Samræming vinnuálags og einingafjölda 

Oft á tíðum er mikið ósamræmi á milli vinnuálags og einingafjölda, sérstaklega í verklegum áföngum eða áföngum sem eru bæði verklegir og bóklegir. Vaka krefst að þessu sé breytt án tafar og að vinnuálag verði samræmt við einingafjölda.

Nútímavæðing náms á heilbrigðisvísindasviði

Vaka krefst þess að kennsla á Heilbrigðisvísindasviði verði nútímavædd. Tækni í heilbrigðisvísindum hefur fleygt mjög hratt fram á síðustu árum og því er ekki ásættanlegt að kennarar notist enn við gamalt kennsluefni. Við í Vöku viljum að kennarar séu skyldugir til þess að uppfæra námsefni í byrjun hvers árs svo að námið verði alltaf í takt við tímann. 

Upptaka fyrirlestra og aðgengi að gömlum prófum

Í vor tók háskólinn upp fjarkennslu þar sem allir fyrirlestrar eru teknir upp. Það er hins vegar mikilvægt að þessu verði ekki hætt þegar staðkennsla hefst á ný. Vaka vill sjá til þess að upptaka fyrirlestra muni halda áfram á næstkomandi skólaári.

Sumir kennarar hafa einungis gert fyrirlestra sína aðgengilega nemendum í ákveðinn tíma áður en þeim er læst. Vaka vill sjá til þess að fyrirlestraupptökur verði nemendum aðgengilegar yfir alla önnina.

Jafnframt þarf að tryggja jafnan aðgang að gömlum prófum svo að allir sitji við sama borð í náminu. Í reglum háskólans segir meðal annars: “Almennt eiga stúdentar rétt á því að fá að skoða eldri prófverkefni sem lögð hafa verið fyrir þegar að prófraun er að fullu lokið”. Vaka ætlar að þrýsta á deildir innan Heilbrigðisvísindasviðs að virða þessa reglu, því að vitneskja um það hvernig próf er uppbyggt er mikilvægt að mörgu leyti, meðal annars til að draga úr prófkvíða.

Samræma stundatöflur á vef HÍ, Uglu og kennsluskrám

Það vandamál hefur komið upp í ýmsum deildum að lélegt samræmi sé á milli stundataflna nemenda. Vaka vill sjá til þess að stundatöflur á vef Háskóla Íslands, Uglu og í kennsluskrám verði samræmdar og koma í veg fyrir að árekstur verði milli stundataflna. Nýlega var vefurinn Canvas tekinn upp og því þarf að samræma stundatöflu þar einnig. 

Engin skyldumæting eftir kl. 16:00

Á Heilbrigðisvísindasviði eru margir tímar kenndir eftir klukkan 16:00. Skyldumæting í kennslustund eftir klukkan 16:00 á daginn er ekki aðeins foreldrum í námi til trafala heldur bitnar hún líka á stúdentum sem vinna með námi, stunda íþróttir, taka þátt í tómstundum, gæta systkina o.s.frv.. Ef að fyrrgreind skyldumæting er ekki afnumin þá er jafnrétti til náms ekki tryggt, þar sem námsmenn hafa þá ekki allir jafnan aðgang að námsefninu. Því krefst Vaka að skyldumæting eftir klukkan 16:00 sé afnumin á þeim grundvelli að hámarka jafnt stæði stúdenta innan Háskóla Íslands.

Sjúkraliðar fái metnar einingar í hjúkrunarfræðinámi

Eins og staðan er í dag þá fá sjúkraliðar hvorki hluta úr sínu námi né starfsreynslu metna í hjúkrunarfræði. Ástæða þess er að námið er á framhaldsskólastigi. Okkur í Vöku finnst eðlilegt að sjúkraliðar fái grunnáfanga í hjúkrun metna, vegna náms síns og starfsreynslu. 

Samræmum læknisfræðinám við aðrar námsleiðir heilbrigðisvísindasviðs

Vaka vill berjast fyrir því að skólaárið í læknisfræði sé í samræmi við önnur svið. Vaka vill stytta árið í læknisfræði svo það byrji og endi á sama tíma og í öðrum námsleiðum.

Les- og hópavinnuaðstaða

Auðveldum nemendur ferlið að panta stofu eða fundarherbergi fyrir hópavinnu. Nemendur ættu að hafa óheftan aðgang að kennslustofum utan kennslustunda líkt og er í öðrum skólum með þeim skilyrðum að nemendur fari vel með stofuna. Aðstöðu í lesstofum sem nú þegar eru til staðar þarf að bæta, sem dæmi má nefna Læknagarð, en þar takmarkað lesstofupláss og engin hópavinnuaðstaða.

Heilsutorg – Þverfagleg teymisvinna

Nemendur í klínísku námi á Landspítalanum fái tækifæri til að fylgja leiðbeinendum úr öðrum geirum. Þar fá ólíkar námsleiðir að kynnast margs konar vinnubrögðum og auka þar með skilning á öðrum starfssviðum sem vinna náið saman. Með því fá til dæmis hjúkrunarfræðinemar innsýn í starf annarra geira spítalans sem gæti gagnast þeim að námi loknu. Fá þeir þá, til dæmis, innsýn í starf sjúkraþjálfara sjúklinga innlögðum á LSH og aðkomu lyfjafræðinga að flóknum lyfjavandamálum. Þetta á við um allar deildir innan sviðsins sem eru í verknámi þar sem aðrar stéttir starfa.

Endurtektarpróf í janúar 

Vaka hyggur á að halda áfram að þrýsta á að endurtektarpróf af haustmisseri verði haldin í janúar en ekki í lok vorannar eins og er nú. 

Samkvæmt reglum háskólans hafa nemendur rétt á því að taka lokaprófið tvisvar. Í sumum tilfellum er þó ekki boðið upp á endurtökupróf heldur þurfa nemendur að taka allan áfangann á ný. Vaka mun berjast fyrir því að þessari reglu sé fylgt eftir. 

Endurgjöf einkunna

Mikilvægt er að nemendur fái einkunn fyrir verk sín á réttum tíma. Kennarar hafa fyrirfram ákveðinn frest til þess að skila einkunnum. Hins vegar er of algengt að kennarar virði þetta ekki. Vaka mun því berjast fyrir því að kennarar fylgi þeim fresti og nemendur fái einkunnir á réttum tíma.  

Vaka mun berjast fyrir því að endurgjöf fyrir verkefni og próf feli í sér nákvæma sundurliðun. Það er óboðlegt að nemendur fái einungis tölulega gagnrýni fyrir verk sín, án frekari útlistinga. Það gefur nemanda hvorki nægilegar upplýsingar um frammistöðu sína né svigrúm til að bæta sig. Með því að hafa sundurliðun á einkunn getur nemandi séð hvernig gekk í hverjum lið prófs eða verkefnis fyrir sig.

Gjaldskylda á bílastæðum Landspítalans 

Vaka vill krefjast þess að þeir nemendur sem ekki geta nýtt sér annan ferðamáta en einkabíl og stundi nám á svæði Landspítalans fái undantekningu frá gjaldskyldu á þeim lóðum. Annað hvort með þeim hætti að útvega þeim sérstakt bílastæðakort, aðgang að starfsmannabílastæði eða bílastæðastyrk á hverri önn. 

Bætt úrval vegan máltíða 

Lítið er um vegan úrval í byggingum eins og t.d. Eirbergi, Vaka krefst þess að það sé hægt að fá vegan vörur í Hámu í öllum heimabyggingum. 

Tilraunir á dýrum 

Í sumum fögum innan heilbrigðisvísindasviðs hefur það tíðkast að nota lifandi dýr í verklegum tímum í kennslutilgangi, þetta er ómannúðlegt og ekki í takt við tímann. Vaka krefst þess að kennarar finni aðrar leiðir til þess að kenna námsefnið og hætti að nota dýr í kennslu.

Varamenn