Félagsvísindasvið

Ellen Geirsdóttir Håkansson
1. sæti
Stjórnmálafræði
Þorsteinn Stefánsson
2. sæti
Hagfræði
Haukur Yngvi Jónasson
3. sæti
Lögfræði
Guðjón Gunnar Valtýsson Thors
4. sæti
Viðskiptafræði
Birta Karen Tryggvadóttir
5. sæti
Hagfræði

Aukin geðheilbrigðisþjónusta og styrktarsjóður

Það hafa orðið miklar framfarir í geðheilbrigðismálum á liðnum árum. Nú er mikilvægt að HÍ sýni vilja til betrunar í verki og leggi sig fram við það að einfalda nemendum að hugsa um geðheilsu sína á meðan á námi stendur. Vaka vill að sálfræðingum á vegum HÍ verði fjölgað og að greiðslugeta nemenda skipti minna máli þegar kemur að því að sækja sér geðheilbrigðisþjónustu. Vaka vill létta byrðina fyrir nemendur, koma á laggirnar styrktarsjóði sem nemendur geta leitað til og í gegnum hann fengið geðheilbrigðisþjónustu sína niðurgreidda. 

Öll verða að hafa sama aðgang að kennsluefni

Þó að margar deildir HÍ hafi tekið sig verulega á hvað varðar upptökur á kennslustundum vegna COVID-19 er nauðsynlegt að ítreka mikilvægi þess að allar kennslustundir séu teknar upp og birtar. Vaka gerir einnig þá kröfu að allar prófsýningar skuli teknar upp og birtar á heimasvæði námskeiða.

Kennsluefni, upptökur og upplýsingar aðgengilegar tímanlega

Vaka vill leggja áherslu á að öll hafi aðgang að nauðsynlegum upplýsingum fyrir próf eða verkefnavinnu í upphafi annar. Einnig er mikilvægt að upptökur á fyrirlestrum séu settar inn á sama degi og kennslustund er skráð í stundatöflu og séu aðgengilegar út misserið. 

Vægi verkefna þarf að vera í samræmi við vinnuálag ásamt einingafjölda

Vinnuálag í áfanga þarf að liggja fyrir í upphafi annar og mikilvægt er að ekki sé farið yfir það álag sem eðlilegt þykir miðað við einingafjölda. Það ætti einnig að vera auðveldara fyrir nemendur að reikna út og sinna aðhaldshlutverki varðandi vinnutímana á bak við hverja einingu og hvert prósentustig og hvort kennarar séu að fara eftir því. Það þarf að koma á frekara jafnvægi hvað þetta varðar. Ef verkefni er þyngt óvænt á miðri önn þarf hlutfall þess af heildareinkunn að endurspegla breytinguna. 

Bjóða upp á vinnustofu fyrir lokaverkefni í öllum deildum 

Vaka telur mikilvægt að allar deildir Félagsvísindasviðs bjóði upp á einingalausar vinnustofur vegna B.A. eða B.Sc. ritgerðarskrifa. Vinnustofurnar geta komið í veg fyrir óþarfa stress og leiðbeint nemendum í gegnum fyrstu skrefin. 

Sýna gott fordæmi í aðgengismálum 

Vaka ætlar að beita sér fyrir því að allar deildir Félagsvísindasviðs og nemendafélög þeirra séu meðvituð um aðgengismál í kennslustofum og á viðburðum sínum. Það er með öllu ótækt að félagslíf eða nám sé ekki aðgengilegt öllum nemendum. 

Nýta byggingar fyrir fyrirlestra betur

Vaka hyggst berjast fyrir því að fyrirlestrar haldist í sömu byggingum og var lagt upp með, út önnina. Breytingum á fyrirkomulagi kennslu getur fylgt misskilningur og óþægindi fyrir nemendur. Oftar en ekki er tilkynnt um tilfærslu fyrirlestra með skömmum fyrirvara, sem er með öllu óviðunandi. Þar að auki getur flakk á milli bygginga skapað mikil vandræði fyrir nemendur með fatlanir þar sem lítill tími er yfirleitt til stefnu á milli kennslustunda. 

Krefjumst þess að réttur nemenda sé virtur

Það hvílir lögbundin skylda á öllum deildum háskólans til að veita nemendum aðgang að gömlum prófum. Í því ljósi leggur Vaka fram þá kröfu að allar deildir sviðsins virði í hvívetna rétt nemenda til þess að sjá gömul próf. Yfirferð eldri prófa er gagnleg leið fyrir nemendur til þess að tileinka sér góða námstækni og gera sér almennilega grein fyrir því hvers ætlast er til af þeim.

Opnum skólastofurnar

Vöku hafa borist margar ábendingar þess efnis að hópavinnuaðstöðu skólans þurfi að bæta. Við viljum leysa það vandamál með því að opna skólastofurnar fyrir nemendum. Rýmið sem þörf er á er til staðar, það eina sem til þarf er skilvirk leið til að nýta það. Til dæmis væri hægt að hvetja til frekari notkunar á stúdentakortum háskólans og nota þau til þess að öðlast aðgang að tómum stofum.

Sjúkra- og endurtektarpróf haustannar í janúar

Nú þegar hefur verið samþykkt að sjúkra- og endurtektarpróf haustannar á Félagsvísindasviði fari fram í janúar, en þetta hefur verið baráttumál til margra ára. Vaka ætlar að sjá til þess að þetta gangi í gegn og mun halda áfram að þrýsta á Félagsvísindasvið svo þetta fyrirkomulag geti tekið gildi sem fyrst, nemendur eiga ekki að þurfa að bíða lengur.  

Sundurliðun einkunna og umsögn

Vaka mun berjast fyrir því að birting einkunna á heimasvæði áfanga á Uglu feli í sér sundurliðun og umsögn, eigi það við. Með því móti getur nemandi séð hvernig honum gekk í hverjum lið prófs eða verkefnis fyrir sig. Heildareinkunn fyrir próf eða verkefni er ekki nægilega skýr niðurstaða og sundurliðun einkunna og umsögn því nauðsynleg.

Meiri samskipti sviðsráðs við nemendafélög

Vaka hyggst standa fyrir auknum samskiptum sviðsráðs Félagsvísindasviðs við þau nemendafélög sem starfa á umræddu sviði. Aukin samskipti sviðsráðs við nemendafélög auðvelda framkvæmd þeirra málefna sem varða hverja deild fyrir sig og er því nauðsynlegt að stuðla að auknum samskiptum.

Atvinnudagar Félagsvísindasviðs

Það er vilji Vöku að settir verði á laggirnar Atvinnudagar Félagsvísindasviðs. Dagarnir yrðu haldnir í samstarfi við nemendafélög sviðsins. Markmiðið er að þessir dagar séu vettvangur fyrir  fyrirtæki atvinnulífsins til að kynna þau störf sem standa nemendum sviðsins til boða að námi loknu. Fulltrúar Vöku í sviðsráði Félagsvísindasviðs 2019 til 2020 hafa nú þegar lagt grunn að þessu og vill Vaka halda þeirri vinnu áfram á komandi starfsári.

Áfangar á meistarastigi

Vilji Vöku er að framboð áfanga á meistarastigi sem kenndir séu á ensku verði aukið. Með þessu er hægt að ná til fleiri erlendra félagsvísindanema sem hafa áhuga á því að stunda nám hér á landi. Einnig kemur þetta til móts við innlenda nemendur sem vilja taka áfanga á ensku.

Varamenn